Fara í innihald

Michael Dummett

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Michael Anthony Eardley Dummett
Michael Anthony Eardley Dummett
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. júní 1925
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðRökgreiningarheimspeki
Helstu ritverkFrege: Philosophy of Language, Truth and Other Enigmas, Frege: Philosophy of Mathematics, The Logical Basis of Metaphysics, Origins of Analytical Philosophy, The Seas of Language
Helstu kenningarFrege: Philosophy of Language, Truth and Other Enigmas, Frege: Philosophy of Mathematics, The Logical Basis of Metaphysics, Origins of Analytical Philosophy, The Seas of Language
Helstu viðfangsefnimálspeki, rökfræði, frumspeki, kosningafræði

Sir Michael Anthony Eardley Dummett (27. júní 192527. desember 2011) var breskur heimspekingur. Hann hefur ritað bæði um sögu rökgreiningarheimspekinnar og var sérfræðingur um heimspeki Gottlobs Frege. Dummett hefur einnig lagt mikið af mörkum til heimspekinnar, einkum á sviði heimspeki stærðfræðinnar, heimspekilegrar rökfræði, málspeki og frumspeki. Hann hefur einnig fengist við kosningafræði og hannaði Quota Borda kerfið fyrir hlutfallslega kosningu, byggt á Borda talningu og hefur ritað fræðileg rit um tarot. Meðal annarra áhugamála hans hafa verið innflytjendalög og ensk málfræði og málnotkun.

Árið 1944 gerðist Dummett kaþóslkur og var æ síðan trúrækinn kaþólikki. Hann nam við Christ Church, Oxford og hlaut skólastyrk til náms við All Souls College. Árið 1979 varð hann Wykeham prófessor í rökfræði við Oxford og gegndi þeirri stöðu þar til hann settist í helgan stein árið 1992. Dummett var aðlaður árið 1999.

Rit Dummetts um þýska heimspekinginn Gottlob Frege hafa hlotið afar góða dóma. Fyrsta bók hans Frege: Philosophy of Language (1973), sem tók hann mörg ár að skrifa, er nú álitin sígilt verk. Bókin var snar þáttur í enduruppgötvun á heimspeki Freges og hafði mikil áhrif á heila kynslóð breskra heimspekinga, þ.á m. Gareth Evans.

Í grein sinni frá 1963 „Realism“ gerði hann vinsæla umdeilda nálgun til skilnings á deilunni milli hluthyggju og gagnrýnenda hennar, svo sem hughyggju, nafnhyggju o.fl. Hann lýsti öllum síðarnefndu viðhorfunum sem ekki-hluthyggju og færði rök fyrir því að í grundvallaratriðum snerist ágreiningur hluthyggju og ekki-hluthyggju um eðli sannleikans. Hann hefur haldið því fram að hluthyggju sé best að skilja sem það viðhorf að fallast á hina sígildu lýsingu á sannleikanum sem tvígildum og óháðum vitnisburði en ekki-hluthyggja hafnar þessu, skv. Dummett, og heldur í staðinn á lofti hugmyndinni um þekkjanlegan sannleika. Frá sögulegu sjónarhorni hafði þessi ágreiningur verið skilinn sem ágreiningur um hvort verundir af ákveðnu tagi ættu sér sjálfstæða og hlutlæga tilvist eða ekki. Þannig getum við talað um (ekki-)hluthyggju með tilliti til annarra hugsandi vera, fortíðarinnar, framtíðarinnar, altaka, stærðfræðilegra verunda (svo sem náttúrulegra talna), siðferðilegra hugtaka, efnisheimsins og jafnvel hugsunar. Nýungin í nálgun Dummetts fólst í því að sjá þennan ágreining sem í grunninn hliðstæðan ágreiningnum milli innsæishyggju og platonisma í heimspeki stærðfræðinnar.

Baráttumál

[breyta | breyta frumkóða]

Dummett hefur tekið þátt í stjórnmálabaráttu og barist gegn kynþáttamismunun. Hann hætti ferli sínum í heimspeki til að reyna að knýja fram borgaraleg réttindi fyrir minnihlutahópa á 7. áratug 20. aldar á tíma sem hann áleit skipta sköpum fyrir umbætur. Hann hefur einnig fengist við kosningafræði, sem leiddi til uppfinningar hans á Quota Borda kerfinu.

Hann hefur skrifað um það áfall sem hann varð fyrir er hann fann andsemitísk viðhorf í skrifum Freges, sem hann hafði varið svo miklum hluta starfsævinnar í að rannsaka.

Michael Dummett er einnig sérfróður um sögu tarotspila og hefur skrifað þó nokkuð um þau, þ.á m. „The Game of Tarot: From Ferrara to Salt Lake city“ (1980), sem markaði spor í bókmenntirnar um spilin. Hann færir rök fyrir því að notkun tarot spila á miðöldum hafi verið í leikjum og að þau hafi fyrst farið að vera tengt dulspeki á 18. öld.

Helstu ritverk

[breyta | breyta frumkóða]
  • Frege: Philosophy of Language (London, 1973/1981)
  • Elements of Intuitionism (Oxford, 1977/2000)
  • Truth and Other Enigmas (London, 1978)
  • Voting Procedures (Oxford, 1984)
  • Frege: Philosophy of Mathematics (London, 1991)
  • The Logical Basis of Metaphysics (London, 1991)
  • Origins of Analytical Philosophy (London, 1993)
  • The Seas of Language (Oxford, 1993)
  • Principles of Electoral Reform (New York 1997)
  • Truth and the Past (Oxford, 2005)

Fyrirmynd greinarinnar var „Michael Dummett“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. mars 2006.

  • Kirkham, Richard, Theories of Truth (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1992). 8. kafli er umfjöllun um kenningu Dummetts um merkingu.
  • Green, Karen, Dummett: Philosophy of Language (Polity, 2001). ISBN 0-7456-2295-X